Ráðgjöf og samtalsmeðferð

Enginn er eyland. Flest erum við hluti af fjölskyldu með einum eða öðrum hætti og margt af því sem gleður okkur mest og veldur okkur mestri angist tengist fjölskyldunni og samskiptum við hana. Ólikar tilfinningar og verkefni fylgja hverju lífsskeiði og þær kröfur sem samfélagið gerir til einstaklinga og fjölskyldna eru í sífelldri þróun. Fjölskyldur nútímans eru líka allskonar. Tæplega 40% hjónabanda á Íslandi enda með skilnaði, sem segir meira en mörg orð. Það hefur sennilega aldrei verið flóknara að vera foreldri og maki en einmitt í dag.

Rannsóknir sýna með skýrum hætti að það getur verið mjög gagnlegt að fá faglega aðstoð þegar vandamál koma upp tengd líðan og samskiptum. Ég hef einlægan áhuga á að hjálpa fólki með slík vandamál, hvort sem það eru erfiðleikar með tilfinningar, hugsanir og tilgang lífsins, vandamál í hjónabandi, uppeldi barna, samskipti við ungmenni, aldraða foreldra eða hvaðeina sem veldur sálarangist og vanlíðan.

Það getur verið mjög áhrifaríkt að ræða málin í algerum trúnaði við einhvern sem kann að hlusta og getur með innsæi og fræðilegri þekkingu hjálpað manni að sjá nýjar leiðir fram á við. Og það er mikill misskilningur að halda að ráðgjöf og samtalsmeðferð sé bara fyrir fólk sem glímir við alvarleg vandamál. Hún getur t.d. verið mjög hjálpleg ef þú vilt gera gott hjónaband betra, verða betra foreldri, ná auknum árangri í starfi eða upplifa meiri gleði og lífsfyllingu.

Hvernig fer ráðgjöfin/meðferðin fram?

Meðferðin er sérsniðin að þörfum og áhuga hvers og eins. Það felst engin skuldbinding í því að panta tíma og prófa. Við hittumst einfaldlega og skoðum í sameiningu hvort ég gæti mögulega hjálpað. Málin eru alltaf skoðuð í samhengi við fjölskyldu skjólstæðings og það er alveg undir hverjum og einum komið hvort fleiri en einn mæta í viðtal. Slíkt er auðvitað oft æskilegt, sérstaklega þegar um er að ræða vandamál í hjónabandi en er þó aldrei skilyrði.

Meðferðarvinnan fer ávallt fram með virðingu, hlýju og fullri athygli og er alltaf opið samtal sem stundum getur þróast í óvæntar áttir. Slík samtöl eru nánast alltaf gagnleg því maður veit oft ekki alveg hvað maður er að hugsa eða hvað manni finnst fyrr en maður segir hlutina upphátt. Það þarf vart að taka fram að ávallt ríkir fullkominn trúnaður um allt sem rætt er.

Um mig

Ég er fæddur árið 1974 og telst því fljótlega miðaldra. Ég hef pælt í hamingju og andlegri heilsu í áratugi er með menntun á sviði félagsfræði og mannauðsstjórnunar og hef lokið klínísku námi á meistarastigi í fjölskyldumeðferð. Ég hef líka stundað hugleiðslu í tæp 30 ár og hef sótt kennaranámskeið í þeim fræðum. Ég hef kynnt mér sérstaklega gagnreynt meðferðarmódel sem nefnist Acceptance and Commitment Therapy (ACT) og hef sótt sérhæfð námskeið á því sviði bæði hérlendis og erlendis. Ég stofnaði ásamt Orra Smárasyni, sálfræðingi, heimasíðuna Lifðu betur (www.lifdubetur.is) sem byggir á ACT og er fyrsta kennsluefnið sem kemur út um þau fræði á íslensku. Ég giftist eiginkonu minni árið 1999 og eigum við tvö börn. Eins og flestir hef ég þurft að glíma við ýmis vandamál í lífinu: missi, sorg, kvíða og depurð og veit því af eigin raun að það getur skipt miklu máli að leita sér aðstoðar og að það eru til ýmsar leiðir fram á við, jafnvel þegar öll sund virðast lokuð.

Námskeið og fyrirlestrar

Ég hef mikla reynslu af því að kenna námskeið um samskipti og líðan, bæði í einkalífi og á vinnustöðum og get með tiltölulega litlum fyrirvara boðið upp á námskeið á þeim sviðum. Hafðu samband og við skoðum hvort ég get hjálpað.

Fyrirtækjaráðgjöf

Ég hef 20 ára reynslu á sviði mannauðsmála og býð upp á ráðgjöf á því sviði samhliða störfum sem fjölskyldufræðingur. Ég get t.d. aðstoðað með samskiptavanda á vinnustað, þjálfun og handleiðslu stjórnenda o.fl. Ég hef einnig mikla reynslu í námskeiðahaldi um streitu, líðan, samskipti og stjórnun. Slík þjónusta er ávallt sérsniðin að þörfum fyrirtækisins.

Sigurður Ólafsson
Ráðgjafi og fjölskyldufræðingur
Gagnráð ehf.
Egilsbraut 25
740 Neskaupstað
[email protected]
8694868

Gengið er inn um hliðarinngang austanmegin og upp aðra hæð. Stofan mín er önnur í röðinni á vinstri hönd.

Hafa samband